Merki Barnauppeldissjóðs

Jólamerki Thorvaldsensfélagsins

Jólamerki eru skrautmerki sem prýða jólapóstinn og hafa ætíð verið gefin út í fjáröflunarskyni. Fyrsta jólmerkið var gefið út í Danmörku árið 1904. Fyrstu jólamerkin sem komu til Íslands voru Caritas styrktar-og jólamerkin sem Kaþólsku Caritas samtökin í Danmörku gáfu út. Þessi merki voru gefin til Íslands árið 1904 til að létta undir með byggingu barnahælis sem átti að stofna. Einnig voru þessi dönsku merki send aftur til Íslands 1905 og árið 1911.

 

Þarna sáu Thorvaldsenskonur leið til fjáröflunar og ákváðu að gefa út jólamerki og árið 1913 kom fyrsta íslenska jólamerkið út og þar með var hafin regluleg útgáfa á íslenskum jólamerkjum. Og í 101 ár hafa jólamerki Thorvaldsensfélagsins komið út árlega ef undan er skilið árið 1917 þegar skipinu sem flutti jólamerkin til landsins var sökkt. En þá geisaði fyrri heimstyrjöldin.

 

Jólamerkin eru vinsæl meðal safnara bæði hérlendis og erlendis og Thorvaldsensfélagið á marga góða viðskiptavini sem kaupa eða láta senda sér jólamerkin ár eftir ár. Jólamerkin eru til í flestum árgöngum frá 1920, ekki eru þó til heilar arkir í þeim öllum. Litaprufur eru til í flestum árgöngum frá 1975 einnig er til nokkuð af afbrigðilegum merkjum. Fyrir hver jól eru merkin seld af félagskonum, þau fást á flestum pósthúsum landsins og á Thorvaldsensbazar Austurstræti 4, þar eru einnig seld merki frá fyrri árum. Myndefni jólamerkjanna er afar fjölbreytt og Thorvaldsensfélagið hefur átt því láni að fagna að margir af helstu listamönnum þjóðarinnar hafa ljáð félaginu myndir sínar eða málað þær sérstaklega til að setja á jólamerkin.

 

Jólamerkin hafa alla tíð verið ein helsta tekjulind félagsins og til að kynna þau betur var gefið út ritið Jólamerki Thorvaldsensfélagsins í tilefni af 125 ára afmæli félagsins árið 2000. Í þessu riti eru litmyndir af öllum jólamerkjunum, lýsing á þeim og getið um alla þá listamenn sem hafa gert eða ljáð myndir sínar á þau. Öll jólamerkin eru jafnframt kynnt á heimasíðu félagsins 1913-2014. Litið er á jólamerkin með augum safnarans og frá listrænu sjónarmiði. Í ritinu er einnig stiklað á stóru í sögu félagsins. Jólamerki Thorvaldsensfélagsins hafa verið sýnd á fjölmörgum frímerkjasýningum er félagið hefur tekið þátt í.

jólamerki 2014

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509