Fréttir

Ný stjórn kosin á aðalfundi Thorvaldsensfélagsins

Á aðalfundi Thorvaldsensfélagsins í gærkvöldi sem haldinn var á Hótel Natura var Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns kosin formaður Thorvaldsensfélagsins til næstu þriggja ára. Anna Birna hafði áður setið í stjórn félagsins í 6 ár, þarf af eitt ár sem varaformaður. Anna Birna tók við formennsku af Kristínu Zoega sem stýrt hefur félaginu með myndarbrag síðastliðin 3 ár. Thorvaldsensfélagið er með elstu kvenfélögum landsins, var stofnað árið 1875 og er Anna Birna 14. formaður þess. Áður fyrr voru konur kosnar til stjórnarsetu í fjölmörg ár,fyrsti formaðurinn Þórunn Jónassen sat í 46 ár og tvær þeirra þær Svanfríður Hjartardóttir og Unnur Scram Ágústsdóttir gegndu formennsku í yfir 20 ár hvor. Thorvaldsensfélagið er góðgerðarfélag sem rekur myndarlega sjóði og verslunina Thorvaldsensbazar að Austurstræti 4. Félagskonur eru 96 og vinna öll sín störf í sjálfboðavinnu. Á síðasta starfsári voru veittir styrkir fyrir rúmlega 9 milljónir. Stærstu styrkirnir fóru til meðferðar- og endurhæfingardeildar Landspítalans fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma, til Thorvaldsenssjóðsins sem sinnir málefnum barna og unglinga með sykursýki við Barnaspítala Hringsins og til Heilsuskólans sem er forvarnar- og meðferðarúrræði fyrir börn sem glíma við offituvanda. Úr stjórn auk Kristínar gekk Hlíf Jóhannsdóttir og í hennar stað var kosin Anna H. Pétursdóttir. Stjórn Thorvaldsensfélagsins skipa auk Önnu Birnu þær Anna H. Pétursdóttir, Áslaug Sif Guðjónsdóttir, Elín Sigrún Jóhannsdóttir, Guðrún Ragnars, Sigríður Brynjólfsdóttir og Þóra Björg Guðmundsdóttir.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509