Fréttir

Jólamerki Barnauppeldissjóðs Thorvaldsensfélagsins í 100 ár

Velkomin á sýningu Barnauppeldissjóðs Thorvaldsensfélagsins ,,Jólamerki í 100 ár 1913—2013". Sýnd eru 100 merki og fjöldi frummynda eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Sala er á jólamerkjum og kortum til góðgerðarmála í þágu barna.Sýningin er í Ráðhúsi Reykjavíkur helgina 5. og 6. október 2013 og er opin milli kl. 12:00—18:00

Thorvaldsensfélagið styrkir þróun á heilsueflandi snjallsímaforriti

Þann 30. maí afhenti Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins rausnarlegan styrk vegna verkefnis sem unnið hefur verið að undanfarið í samstarfi við Heilsuskóla Barnaspítala Hringsins. Um er að ræða þróun og prófanir á snjallsímaforriti (appi) í leikjaformi sem er ætlað að hjálpa ungu fólki að bæta heilsu sína með áherslu á mataræði, hreyfingu og geðrækt. Meðal þeirra þeirra sem koma að verkefninu eru sérfræðingar frá Landspítalanum, Háskóla Íslands, Embætti landlæknis, Karolinska háskólanum í Svíþjóð ásamt Harvard og M.I.T. háskólunum í Bandaríkjunum. Umsjónarmenn verkefnisins eru Tryggvi Þorgeirsson læknir og lýðheilsufræðingur og Ragnar Bjarnason prófessor og yfirlæknir á Barnaspítalanum. Að sögn aðstandenda verkefnisins hefur skort rannsóknir á möguleikum snjallsíma við lýðheilsuinngrip. Snjallsímaforritið mun nýta nýstárlegar aðferðir og standa vonir rannsakenda til þess að tæknin geti haft jákvæð áhrif á forvarna- og heilsueflingarstarf jafnt hér á landi sem erlendis. Verkefnið hefur áður hlotið styrki úr Lýðheilsusjóði og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands og hefur frumgerð forritins þegar verið framleidd. Styrkveiting Barnauppeldissjóðs Thorvaldsensfélagsins gerir aðstandendum nú kleift að starfa með öflugum innlendum samstarfsaðilum á sviði hönnunar og þróa hugmyndirnar áfram á endanlegt form. Stjórn hönnunarvinnu verður í höndum vefstofunnar Skapalóns í samstarfi við fyrirtækin Fíton og Miðstræti.

DSC 0236 640x428

Thorvaldsensbazar á 112 ára afmæli 1.júní

Laugardaginn 1. júní fagnar Thorvaldsensbazar 112 ára afmæli sínu. Að venju bjóða félagskonur viðskiptavinum og gestum að koma við á bazarnum og þiggja kaffisopa og pönnukökur, sjá vöruúrvalið og kynnast starfsemi félagsins. Allur ágóði af sölu bazarsins við Austurstræti 4 rennur til góðgerðamála.

Ný stjórn kosin á aðalfundi Thorvaldsensfélagsins

Á aðalfundi Thorvaldsensfélagsins í gærkvöldi sem haldinn var á Hótel Natura var Anna Birna Jensdóttir hjúkrunarfræðingur og framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilisins Sóltúns kosin formaður Thorvaldsensfélagsins til næstu þriggja ára. Anna Birna hafði áður setið í stjórn félagsins í 6 ár, þarf af eitt ár sem varaformaður. Anna Birna tók við formennsku af Kristínu Zoega sem stýrt hefur félaginu með myndarbrag síðastliðin 3 ár. Thorvaldsensfélagið er með elstu kvenfélögum landsins, var stofnað árið 1875 og er Anna Birna 14. formaður þess. Áður fyrr voru konur kosnar til stjórnarsetu í fjölmörg ár,fyrsti formaðurinn Þórunn Jónassen sat í 46 ár og tvær þeirra þær Svanfríður Hjartardóttir og Unnur Scram Ágústsdóttir gegndu formennsku í yfir 20 ár hvor. Thorvaldsensfélagið er góðgerðarfélag sem rekur myndarlega sjóði og verslunina Thorvaldsensbazar að Austurstræti 4. Félagskonur eru 96 og vinna öll sín störf í sjálfboðavinnu. Á síðasta starfsári voru veittir styrkir fyrir rúmlega 9 milljónir. Stærstu styrkirnir fóru til meðferðar- og endurhæfingardeildar Landspítalans fyrir ungt fólk með byrjandi geðrofssjúkdóma, til Thorvaldsenssjóðsins sem sinnir málefnum barna og unglinga með sykursýki við Barnaspítala Hringsins og til Heilsuskólans sem er forvarnar- og meðferðarúrræði fyrir börn sem glíma við offituvanda. Úr stjórn auk Kristínar gekk Hlíf Jóhannsdóttir og í hennar stað var kosin Anna H. Pétursdóttir. Stjórn Thorvaldsensfélagsins skipa auk Önnu Birnu þær Anna H. Pétursdóttir, Áslaug Sif Guðjónsdóttir, Elín Sigrún Jóhannsdóttir, Guðrún Ragnars, Sigríður Brynjólfsdóttir og Þóra Björg Guðmundsdóttir.

Tónlistarverkefnið Hljómafl fékk veglegan styrk

Föstudaginn 1. mars 2013 afhendir Thorvaldsensfélagið Endurhæfingu LR styrk að upphæð 3.5 milljónir til uppbyggingar á nýju úrræði; tónlistarverkefninu HLJÓMAFLI. Endurhæfing LR er deild á geðsviði Landspítala sem er sérhæfð meðferðar- og endurhæfingardeild fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára með byrjandi geðrofssjúkdóma. Umsvif deildarinnar hafa vaxið mikið á undanförnum tveimur árum en boðið er upp á fjölbreytt meðferðarform og virkni. Þetta nýjasta úrræði starfseminnar, HLJÓMAFL, er unnið í samvinnu við forsvarsmenn breska tónlistarverkefnisins KEY CHANGES. Markmið Hljómafls er að gefa þjónustuþegum Endurhæfingar LR tækifæri til að vinna með eigin styrkleika gegnum tónlistarsköpun á spennandi, krefjandi og skemmtilegan hátt.Boðið verður upp á námskeið og þjálfun í lagasmíðum, textagerð, útsetningum, upptökum, sviðsframkomu og fleiru.Tónlistarverkefnið HLJÓMAFL ásamt öðrum þáttum í starfsemi Endurhæfingar LR verður staðsett í Víðihlíð sem stendur við Holtagarða. Thorvaldsensfélagið veitti Endurhæfingu LR styrk fyrir öllum þeim hljóðfærum og tækjakosti sem þarf til að starfrækja verkefnið HLJÓMAFL. Að sögn forsvarsmanna verkefnisins er styrkur Thorvaldsensfélagsins mikil lyftistöng fyrir alla starfsemi Endurhæfingar LR og tryggir þar með aukna fjölbreytni í endurhæfingarúrræðum fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509