Fréttir

Tónlistarverkefnið Hljómafl fékk veglegan styrk

Föstudaginn 1. mars 2013 afhendir Thorvaldsensfélagið Endurhæfingu LR styrk að upphæð 3.5 milljónir til uppbyggingar á nýju úrræði; tónlistarverkefninu HLJÓMAFLI. Endurhæfing LR er deild á geðsviði Landspítala sem er sérhæfð meðferðar- og endurhæfingardeild fyrir ungt fólk á aldrinum 18-25 ára með byrjandi geðrofssjúkdóma. Umsvif deildarinnar hafa vaxið mikið á undanförnum tveimur árum en boðið er upp á fjölbreytt meðferðarform og virkni. Þetta nýjasta úrræði starfseminnar, HLJÓMAFL, er unnið í samvinnu við forsvarsmenn breska tónlistarverkefnisins KEY CHANGES. Markmið Hljómafls er að gefa þjónustuþegum Endurhæfingar LR tækifæri til að vinna með eigin styrkleika gegnum tónlistarsköpun á spennandi, krefjandi og skemmtilegan hátt.Boðið verður upp á námskeið og þjálfun í lagasmíðum, textagerð, útsetningum, upptökum, sviðsframkomu og fleiru.Tónlistarverkefnið HLJÓMAFL ásamt öðrum þáttum í starfsemi Endurhæfingar LR verður staðsett í Víðihlíð sem stendur við Holtagarða. Thorvaldsensfélagið veitti Endurhæfingu LR styrk fyrir öllum þeim hljóðfærum og tækjakosti sem þarf til að starfrækja verkefnið HLJÓMAFL. Að sögn forsvarsmanna verkefnisins er styrkur Thorvaldsensfélagsins mikil lyftistöng fyrir alla starfsemi Endurhæfingar LR og tryggir þar með aukna fjölbreytni í endurhæfingarúrræðum fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma.

Thorvaldsenskonur styrkja sykursjúk börn og unglinga

Thorvaldsenskonur færðu nýlega Thorvaldsenssjóðnum tvær milljónir króna að gjöf. Thorvaldsensfélagið stofnaði sjálfstæðan sjóð í nóvember 2003. Tilgangur og markmið sjóðsins er að styðja og efla hverja þá starfsemi sem lýtur að málefnum barna og unglinga með sykursýki við Barnaspítala Hringsins. Sjóðurinn hefur um áraraðir stutt dyggilega við rekstur sumarbúða barna og unglinga með sykursýki. Einnig hafa styrkir verið veittir til tækjakaupa, viðhaldsmenntunar og fræðsluefnis sem lýtur að sykursýki.

Jólakortið 2012

Jólakortið í ár prýðir mynd eftir Temmu Bell listmálara. Myndin er af glöðu danspari og ber hún heitið Jóladans. Ágóðinn af sölu jólakortsins rennur í Thorvaldsenssjóðinn, en hann er til styrktar málefnum sykursjúkra barna og unglinga. Fjármunum úr sjóðnum er veitt til rannsókna, tækjakaupa og stuðnings við sumarbúðaferðir sykursjúkra barna og unglinga. Um 25-30 börn fara í sumarbúðir að Löngumýri ár hvert og það er mikils virði fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Þar eru börnin með svipuð úrlausnarefni og eru jafnvíg í leik og starfi. Læknir og hjúkrunarfræðingar fylgjast með líðan barnanna þessa daga. Jólakortið er til sölu á Thorvaldsensbazar, Austurstræti 4 og hjá félagskonum.

Jólamerki Barnauppeldissjóðs 2012 ber heitið Jóladans

2012-joladans

Thorvaldsensfélagið styður rannsóknir og forvarnir gegn offitu barna á leikskólaaldri. Offita barna hefur aukist mjög mikið á síðustu áratugum um allan heim. Offitu fylgja auknar líkur á ýmiskonar heilsufarslegum vanda á lífsleiðinni, eins og stoðkerfirvanda, sykursýki af tegund 2 og hjarta- og æðasjúkdómum. Tengsl hafa jafnframt fundist milli offitu og verri líðan og lífsgæða eins og t.d.eineltis. Það er betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Af þessum ástæðum hefur Thorvaldsensfélagið ákveðið að leggja lið forvörnum gegn offitu barna og styrkja þróun á meðferðarefni fyrir offeit börn og fjölskyldur þeirra. Thorvaldsensfélagið er líknarfélag, stofnað 1875 og hefur gefið út jólamerki frá árinu 1913. Ágóðinn af sölu jólamerkisins hefur alla tið runnið óskertur til líknarmála, sem tengjast börnum og nú í ár mun ágóðinn renna til þessa verkefnis. Jólamerkið prýðir mynd eftir Temmu Bell listmálara og heitir Jóladans. Ein örk með 12 merkjum kostar aðeins kr.300- Hægt er að nálgast merkin á flestum pósthúsum. Þau eru einnig til sölu á Thorvaldsensbazarnum Austurstræti 4, sími 5513509 og hjá félagskonum.

Öldruðum sjúklingum færður fólkslyftari

Thorvaldsenskonur færðu hjúkrunarheimilinu Sóltúni fólkslyftara að gerðinni Viking M., í kaffisamsæti með íbúum og starfsfólki þann 28. ágúst Lyftarinn er ætlaður til notkunar við hjúkrun minnisskertra íbúa á 2. hæð og veitti Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri honum viðtöku frá Kristínu Zöega formanni Thorvaldsensfélagsins. Fólkslyftarinn er nettur, léttur, öruggur og auðveldur í notkun.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509