Fréttir

Jólakort Thorvaldsensfélagsins 2011 ,,Englaljós"

Jólakortið í ár hannaði Hólmfríður Valdimarsdóttir grafískur hönnuður. Ágóðinn af sölu jólakortsins rennur í Thorvaldsenssjóðinn, en hann er til styrktar málefnum sykursjúkra barna og unglinga. Fjármunum úr sjóðnum er veitt til rannsókna, tækjakaupa og stuðnings við sumarbúðaferðir sykursjúkra barna og unglinga. Um 25-30 börn fara í sumarbúðir að Löngumýri ár hvert og það er mikils virði fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Þar eru börnin með svipuð úrlausnarefni og eru jafnvíg í leik og starfi. Læknir og hjúkrunarfræðingar fylgjast með líðan barnanna þessa daga og Thorvaldsenssjóðurinn greiðir laun þeirra. Jólakortið er til sölu á Thorvaldsensbazar, Austurstræti 4 og hjá félagskonum.

Blöðruómsjá gefin á hjúkrunarheimilið Mörk

Thorvaldsensfélagið færði hjúkrunarheimilinu Mörk við Suðurlandsbraut blöðruómsjá þann 8. september síðastliðinn. Blöðruómsjáin er mikilvæg við greiningu á þvagvandamálum sem algeng eru hjá öldruðum sjúklingum. Gísli Páll Pálsson forstjóri og Sigríður Sigurðardóttir hjúkrunarstjóri tóku á móti tækinu og færðu þau félaginu kærar þakkir fyrir.

Sumarferð Thorvaldsenskvenna

Sumarferð Thorvaldsenskvenna var að þessu sinni að Sólheimum í Grímsnesi. 37 konur tóku þátt í ferðinni. Borðaður var léttur hádegisverður í Þrastarlundi og var síðan tekið á móti hópnum kl. 14.00 með sögufyrirlestri í Sesselíjuhúsi. Síðan var leiðsögn um Sólheima og sest niður í kaffi og kökur á Grænu könnunni. Blíðskaparveður var í ferðinni sem var bæði áhugaverð og ánægjuleg.

Thorvaldsensbazar 110 ára

Í dag fagnar Thorvaldsensbazar 110 ára afmæli sínu. Að venju bjóða félagskonur fólki að koma við á bazarnum og þiggja kaffisopa og pönnukökur og sjá vöruúrvalið og kynnast starfsemi félagsins með spjalli við félagskonur. Allur ágóði af sölu bazarsins við Austurstræti 4 rennur til stuðnings við veik börn.

Þakkarkort frá börnunum á BUGL

Börnin á unglingageðdeildinni BUGL sendu Thorvaldsenskonum kveðju á hádegisverðafundinn þann 19. mars síðastliðinn með kærum þökkum fyrir 500 þúsund króna styrkinn sem notaður var í skólanum sem BUGL rekur.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509