Fréttir

Thorvaldsenskonur gáfu tvær milljónir króna til styrktar börnum og unglingum með sykursýki

Thorvaldsenskonur hafa fært Barnaspítala Hringsins tvær milljónir króna að gjöf. Féð rennur í Thorvaldsenssjóðinn sem var stofnaður til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki.Sjóðurinn hefur frá stofnun hans í nóvember 2003 styrkt árlegt sumarbúðastarf fyrir börn og unglinga með sykursýki og gert mögulegt að fjármagna viðveru fagfólks (lækna og hjúkrunarfræðinga ) í sumarbúðunum. Styrkir hafa verið veittir til tækjakaupa, fagfólk hefur verið styrkt til viðhaldsmenntunar og styrkir veittir til gæðaverkefna sem snúast um að bæta sykurstjórnun þeirra ungmenna sem fá þjónustu frá göngudeild Barnaspítalans. Á árinu 2011 var veittur styrkur til útgáfu fræðsluefnis fyrir ungt fólk með sykursýki.

Thorvaldsensfélagið heiðrað á Breiðholtsdögum

Hátíðarsamkoma við lok Breiðholtsdaga var haldin í göngugötunni í Mjódd föstudaginn 25. nóv. Nemendur úr tónlistarsmiðju Hólabrekkuskóla léku og sungu. Gerðubergskórinn söng og nemendur af fjölmenningarbraut FB Matheusz, Sebastian og Konrad sýndu Parkourstökk og danshópurinn Area of stylez sýndi dans.Jón Gnarr borgarstjóri ávarpaði samkomugesti og afhenti heiðursviðurkenningar en þær hlutu að þessu sinni, Thorvaldsenfélagið fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins í Breiðholti, hjónin Gísli H. Sigurðsson og Jónína S. Lárusdóttir í Garðheimum fyrir mikla virkni í blómlegri uppbyggingu mannlífs og gróðurs í Breiðholti og Þorvaldur Jónsson harmonikkuleikari fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins í Breiðholti. Thorvaldsenskonur hafa stutt ómetanlegt ungingastarf Traðar í nokkur ár.

Jólamerki Barnaheimilissjóðs Thorvaldsensfélagsins 2011

Thorvaldsensfélagið styður rannsóknir og forvarnir gegn offitu barna á leikskólaaldri. Rannsóknin fer fram á Barnaspítala Hringsins.Offita barna hefur aukist mjög mikið á síðustu áratugum um allan heim. Offitu fylgja auknar líkur á ýmiskonar heilsufarslegum vanda á lífsleiðinni, eins og stoðkerfirvanda, sykursýki af tegund 2 og hjarta- og æðasjúkdómum. Tengsl hafa jafnframt fundist milli offitu og verri líðan og lífsgjæða eins og t.d.eineltis. Það er betra að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Af þessum ástæðum hefur Thorvaldsensfélagið ákveðið að leggja lið forvörnum gegn offitu barna og styrkja þróun á meðferðarefni fyrir offeit börn og fjölskyldur þeirra. Thorvaldsensfélagið er líknarfélag, stofnað 1875 og hefur gefið út jólamerki frá árinu 1913. Ágóðinn af sölu jólamerkisins hefur alla tið runnið óskertur til líknarmála, sem tengjast börnum og nú í ár mun ágóðinn renna til þessa verkefnis. Jólamerkið prýðir mynd eftir Hólmfríði Valdimarsdóttur og heitir Englaljós. Ein örk með 12 merkjum kostar aðeins kr.300- Hægt er að nálgast merkin á flestum pósthúsum. Þau eru einnig til sölu á Thorvaldsensbazarnum Austurstræti 4, sími 5513509 og hjá félagskonum.

Jólakort Thorvaldsensfélagsins 2011 ,,Englaljós"

Jólakortið í ár hannaði Hólmfríður Valdimarsdóttir grafískur hönnuður. Ágóðinn af sölu jólakortsins rennur í Thorvaldsenssjóðinn, en hann er til styrktar málefnum sykursjúkra barna og unglinga. Fjármunum úr sjóðnum er veitt til rannsókna, tækjakaupa og stuðnings við sumarbúðaferðir sykursjúkra barna og unglinga. Um 25-30 börn fara í sumarbúðir að Löngumýri ár hvert og það er mikils virði fyrir þau og fjölskyldur þeirra. Þar eru börnin með svipuð úrlausnarefni og eru jafnvíg í leik og starfi. Læknir og hjúkrunarfræðingar fylgjast með líðan barnanna þessa daga og Thorvaldsenssjóðurinn greiðir laun þeirra. Jólakortið er til sölu á Thorvaldsensbazar, Austurstræti 4 og hjá félagskonum.

Blöðruómsjá gefin á hjúkrunarheimilið Mörk

Thorvaldsensfélagið færði hjúkrunarheimilinu Mörk við Suðurlandsbraut blöðruómsjá þann 8. september síðastliðinn. Blöðruómsjáin er mikilvæg við greiningu á þvagvandamálum sem algeng eru hjá öldruðum sjúklingum. Gísli Páll Pálsson forstjóri og Sigríður Sigurðardóttir hjúkrunarstjóri tóku á móti tækinu og færðu þau félaginu kærar þakkir fyrir.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509