Fréttir

Sumarferð Thorvaldsenskvenna

Sumarferð Thorvaldsenskvenna var að þessu sinni að Sólheimum í Grímsnesi. 37 konur tóku þátt í ferðinni. Borðaður var léttur hádegisverður í Þrastarlundi og var síðan tekið á móti hópnum kl. 14.00 með sögufyrirlestri í Sesselíjuhúsi. Síðan var leiðsögn um Sólheima og sest niður í kaffi og kökur á Grænu könnunni. Blíðskaparveður var í ferðinni sem var bæði áhugaverð og ánægjuleg.

Thorvaldsensbazar 110 ára

Í dag fagnar Thorvaldsensbazar 110 ára afmæli sínu. Að venju bjóða félagskonur fólki að koma við á bazarnum og þiggja kaffisopa og pönnukökur og sjá vöruúrvalið og kynnast starfsemi félagsins með spjalli við félagskonur. Allur ágóði af sölu bazarsins við Austurstræti 4 rennur til stuðnings við veik börn.

Þakkarkort frá börnunum á BUGL

Börnin á unglingageðdeildinni BUGL sendu Thorvaldsenskonum kveðju á hádegisverðafundinn þann 19. mars síðastliðinn með kærum þökkum fyrir 500 þúsund króna styrkinn sem notaður var í skólanum sem BUGL rekur.

Verkefni í þágu barna styrkt

Á hádegisverðarfundi, þann 19. mars s.l. afhenti Thorvaldsensfélagið gjafabréf að upphæð kr. 8.600.000.00 til þjálfunarseturs fyrir einhverf börn. Styrkur þessi er til uppbyggingar á starfseminni og kaupa á húsgögnum og öðrum búnaði í skólastofurnar. Skóli Hjallastefnunnar í Garðabæ stofnaði þetta verðuga Þálfunarsetur í október 2010 og er það starfrækt í húsnæði skólans á Vífilstöðum. Með opnun þjálfunarsetursins bætist við nýtt úrræði fyrir foreldra einhverfra barna sem brýn þörf er á. Þjálfunarsetrið verður í samstarfi við ABC skólann í Sacramento, Kaliforníu sem sérhæfir sig í atferlisþjálfun einhverfra barna. Styrkur þessi er veittur Í tilefni af 135 ára afmæli Thorvaldsensfélagsins sem var 19.nóvember s.l. Fyrir hönd þjálfunarsetursins tók Berglind Brynjólfsdóttir, sálfræðingur við styrknum. Einnig voru gestir á fundinum þau Ragnar Bjarnason, barnalæknir og Þrúður Gunnarsdóttir, sálfræðingur. Þau sögðu okkur frá niðurstöðum rannsókna á verkefni sem Landspítalinn stóð fyrir vegna svokallaðra „Feitra barna" en Thorvaldsensfélagið styrkti einnig þetta verkefni. Talið er að um 2500 börn á Reykjavíkursvæðinu þurfi á slíkri meðferð að halda. Þarna var um að ræða 84 börn sem tóku þátt í þessari meðferð og var þeim síðan fylgt eftir í tvö ár á eftir. Það var ánægjulegt að sjá hvað niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að meðferðin náði varanlegum árangri.

Ein milljón til Líf , til styrktar Kvennadeild Landspítala

Thorvaldsenskonur gáfu eina milljón króna til LÍF, söfnuninni sem stóð yfir föstudagskvöld 4. mars um land allt fyrir Kvennadeild Landspítalans. Thorvaldsensfélagið hefur reglubundið verið bakhjarl til tækjakaupa sem bráðvantað hefur á kvennasviðið gegnum árin og fagnar því stóra landsátaki sem nú hefur staðið yfir.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509