Fréttir

Meðferðarefni fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra styrkt

Sigríður Sigurbergsdóttir formaður afhenti Ragnari Bjarnasyni lækni og Þrúði Gunnarsdóttur sálfræðingi seinni hlutann af 2,5 milljón króna styrk frá Barnauppeldissjóði Thorvaldsensfélagsins á félagsfundi 21. mars. Fluttu þau erindi og greindu félagskonum frá framvindu verkefnisins ,,Meðferðaefni fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra" við Heilsuskóla Barnaspítalans.

Thorvaldsensfélagið færði Maríuhúsi píanó að gjöf

FAAS félag aðstandenda alzheimersjúklinga opnaði Maríuhús 8. nóvember 2008 í samvinnu við Reykjavíkurborg. Markmiðið var að mæta brýnni þörf á úrræðum í sérhæfðri dagþjálfun fyrir Alzheimersjúklinga og heilabilaða. Þann 1. október sl. tók starfsfólk Maríuhúss á móti fyrstu heimilismönnum sem njóta dagþjálfunar í húsinu. Þar með er miklum áfanga náð í úrræðum fyrir Alzheimersjúklinga á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmenn Maríuhúss eru 10 talsins. Alls dvelja dag hvern 20 einstaklingar. Thorvaldsensfélagið færði starfseminni píanó að gjöf. Sigríður Sigurbergsdóttir formaður Thorvaldsensfélagsins afhenti Sólborgu Sumarliðadóttur forstöðumanni píanóið og Árni Ísleifsson píanóleikari spilaði nokkur lög.

Menningaferð í Heimilisiðnaðarfélagið

Þrjátíu og fjórar félagskonur og gestir þeirra hittust á fögrum laugardegi 31. janúar kl. 11 í húsakynnum Heimilisiðnaðarfélagsins að Nethyl 2 e. Þar tók á móti hópnum Lára Magnes Jónsdóttir formaður félagsins og sagði hún frá starfseminni, sýndi íslenska búninga og kynnti námskeið og útgáfu blaðsins Hugur og hönd. Markmið félagsins er að viðhalda þjóðlegum íslenskum heimilisiðnaði, auka hann og efla og stuðla að vöndun hans og fegurð. Einnig að vekja áhuga landsmanna á því að framleiða fallega og nytsama hluti, er hæfa kröfum nýs tíma en hafa rót sína í hinum gamla og þjóðlega menningararfi. Að kynningu lokinni var haldið yfir í næsta hús þar sem veitingamennirnir í Gallery fisk tóku á móti hópnum. Konurnar gæddu sér á dýrindis fiskisúpu og nýbökuðu brauði. Í eftirrétt var borin fram volg eplakaka og kaffi. Menningaferðin var mjög fróðleg og tókst vel. Menningaferðina skipulögðu Kristín R B Fjólmundsdóttir og Anna Birna Jensdóttir.

Tvær milljónir til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki

Thorvaldsensfélagið hefur fært Thorvaldsenssjóðnum, sem er sjóður til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki, gjöf að upphæð 2 milljónir króna. Sjóðurinn var stofnaður í nóvember 2003 til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki. Gjöfin var afhent 10. nóvember 2008. Aðal styrktaraðilar og stofnendur sjóðsins eru konur í Thorvaldsensfélaginu. Fyrir tilstilli þeirra framlags hefur reynst mögulegt að styrkja viðveru lækna og hjúkrunarfræðinga í sumarbúðum barna og unglinga með sykursýki sem haldnar hafa verið árlega sl. 5 ár. Enn fremur hefur sjóðurinn styrkt rannsóknir á gæðum meðferðar við göngudeild barnaspítalans og nú nýlega öflugt framtak sem miðar að því að gera árangur meðferðar í sykurstjórnun enn betri.

Thorvaldsensfélagið styrkir gerð nýs íslensks meðferðarefnis fyrir of feit börn

Thorvaldsensfélagið hefur fært rannsóknarteymi á Barnaspítala Hringsins 2,5 milljónir króna styrk til gerðar nýs meðferðarefnis fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra. Styrkurinn var afhentur þriðjudaginn 26. ágúst 2008 í leikstofu Barnaspítalans. Meðal viðstaddra var heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson. Íslensk börn hafa á undanförnum áratugum þyngst mikið og hefur það þróast líkt og í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Samfara þessu hefur börnum með umtalsverða offitu fjölgað mikið. Meðferðarúrræði fyrir of feit börn hafa hins vegar verið fá og sundurleit. Brýn þörf er því á þeim. Síðastliðin þrjú ár hefur staðið yfir þróun og rannsóknir á meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra á Barnaspítala Hringsins. Yfir 100 fjölskyldur hafa með góðum árangri farið í gegnum námskeið sem gengið hafa undir nafninu Heilsuskólinn. Meðferðarefni Heilsuskólans hefur verið sótt til Bandaríkjanna sem rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af í um 30 ár. Reynslan af notkun þess hér á landi hefur þó leitt í ljós að margt þarf að bæta og laga að evrópskum og þá sér í lagi íslenskum aðstæðum. Miklar vonir eru þess vegna bundnar við að þetta nýja meðferðarefni, sem verður nú til fyrir tilstilli Thorvaldsensfélagsins, muni geta hjálpað fjölmörgum fjölskyldum á Íslandi í framtíðinni.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509