Fréttir

Tvær milljónir til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki

Thorvaldsensfélagið hefur fært Thorvaldsenssjóðnum, sem er sjóður til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki, gjöf að upphæð 2 milljónir króna. Sjóðurinn var stofnaður í nóvember 2003 til styrktar málefnum barna og unglinga með sykursýki. Gjöfin var afhent 10. nóvember 2008. Aðal styrktaraðilar og stofnendur sjóðsins eru konur í Thorvaldsensfélaginu. Fyrir tilstilli þeirra framlags hefur reynst mögulegt að styrkja viðveru lækna og hjúkrunarfræðinga í sumarbúðum barna og unglinga með sykursýki sem haldnar hafa verið árlega sl. 5 ár. Enn fremur hefur sjóðurinn styrkt rannsóknir á gæðum meðferðar við göngudeild barnaspítalans og nú nýlega öflugt framtak sem miðar að því að gera árangur meðferðar í sykurstjórnun enn betri.

Thorvaldsensfélagið styrkir gerð nýs íslensks meðferðarefnis fyrir of feit börn

Thorvaldsensfélagið hefur fært rannsóknarteymi á Barnaspítala Hringsins 2,5 milljónir króna styrk til gerðar nýs meðferðarefnis fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra. Styrkurinn var afhentur þriðjudaginn 26. ágúst 2008 í leikstofu Barnaspítalans. Meðal viðstaddra var heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson. Íslensk börn hafa á undanförnum áratugum þyngst mikið og hefur það þróast líkt og í Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Samfara þessu hefur börnum með umtalsverða offitu fjölgað mikið. Meðferðarúrræði fyrir of feit börn hafa hins vegar verið fá og sundurleit. Brýn þörf er því á þeim. Síðastliðin þrjú ár hefur staðið yfir þróun og rannsóknir á meðferð fyrir of feit börn og fjölskyldur þeirra á Barnaspítala Hringsins. Yfir 100 fjölskyldur hafa með góðum árangri farið í gegnum námskeið sem gengið hafa undir nafninu Heilsuskólinn. Meðferðarefni Heilsuskólans hefur verið sótt til Bandaríkjanna sem rannsóknir hafa sýnt góðan árangur af í um 30 ár. Reynslan af notkun þess hér á landi hefur þó leitt í ljós að margt þarf að bæta og laga að evrópskum og þá sér í lagi íslenskum aðstæðum. Miklar vonir eru þess vegna bundnar við að þetta nýja meðferðarefni, sem verður nú til fyrir tilstilli Thorvaldsensfélagsins, muni geta hjálpað fjölmörgum fjölskyldum á Íslandi í framtíðinni.

Thorvaldsensfélagið gaf fæðingardeild Landspítala þráðlausa monitorstöð

Thorvaldsensfélagið hefur fært fæðingardeild LSH að gjöf þráðlausa monitorstöð fyrir fæðingasírita. Félagið gaf deildinni sams konar búnað fyrir tveimur árum svo að nú eru tvær slíkar þráðlausar stöðvar til. Þessi búnaður gefur fæðandi konum möguleika á að hreyfa sig meira á meðan á fæðingu stendur og jafnvel vera í vatnsbaði samhliða því að vera tengdar við fósturhjartsláttarrita. Konur sem að hafa keisaraskurð að baki eða þær sem fæðing er framkölluð hjá þurfa að vera stöðugt í fæðingasírita svo að þessi búnaður gjörbreytir aðstæðum fyrir þær.

Barnauppeldissjóður styrkir sjóðinn ,,Blind börn

Sjóðurinn ,,Blind börn" var stofnaður sumarið 1992 og er því orðin fimmtán ára. Forráðamenn sjóðsins hafa ekki farið út í að auglýsa sjóðinn mikið eða stofnað til sérstakra aðgerða til þess að afla fjár. Honum hefur þó á ýmsan hátt alltaf lagst gott til og nú hefur Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins ákveðið að láta söluandvirði jólamerkjanna árið 2007 renna til sjóðsins. Það hefur borið á því undanfarin ár að umsóknir um styrk úr sjóðnum til fartölvukaupa til skólabarna hafi aukist og eru fyrir því eðlilegar ástæður. Börnin hafa í auknum mæli getað notað sér nýjustu tækni við námið sem hefur auðveldað þeim skólavinnuna á margan hátt og eru því kærkomnar nýjungar. Það er þó nokkuð stór viðbótarkostnaður fyrir foreldra ungra barna að útbúa þau með slík tæki við upphaf skólagöngu og hefur sjóðurinn lagt allt kapp á það á undanförnum árum að koma til móts við foreldra með því að styrkja þau til fartölvukaupa fyrir börnin. Ragnar R. Magnússon formaður sjóðsins ,,Blind börn" veitti móttöku gjafabréfi fyrir eina milljón króna þann 30.janúar 2008.

Blöðruómsjá gefin á Grund

Thorvaldsensfélagið færði hjúkrunarheimilinu Grund blöðruómsjá á morgunstund íbúa og starfsfólks á aðventunni. Blöðruómsjáin skiptir sköpum við greiningu á þvagfæravandamálum og því mikilvægt hjálpartæki. Guðrún Gísladóttir forstjóri tók á móti gjöfinni og færði félaginu kærar þakkir fyrir.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509