Fréttir

Thorvaldsensfélagið gaf fæðingardeild Landspítala þráðlausa monitorstöð

Thorvaldsensfélagið hefur fært fæðingardeild LSH að gjöf þráðlausa monitorstöð fyrir fæðingasírita. Félagið gaf deildinni sams konar búnað fyrir tveimur árum svo að nú eru tvær slíkar þráðlausar stöðvar til. Þessi búnaður gefur fæðandi konum möguleika á að hreyfa sig meira á meðan á fæðingu stendur og jafnvel vera í vatnsbaði samhliða því að vera tengdar við fósturhjartsláttarrita. Konur sem að hafa keisaraskurð að baki eða þær sem fæðing er framkölluð hjá þurfa að vera stöðugt í fæðingasírita svo að þessi búnaður gjörbreytir aðstæðum fyrir þær.

Barnauppeldissjóður styrkir sjóðinn ,,Blind börn

Sjóðurinn ,,Blind börn" var stofnaður sumarið 1992 og er því orðin fimmtán ára. Forráðamenn sjóðsins hafa ekki farið út í að auglýsa sjóðinn mikið eða stofnað til sérstakra aðgerða til þess að afla fjár. Honum hefur þó á ýmsan hátt alltaf lagst gott til og nú hefur Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins ákveðið að láta söluandvirði jólamerkjanna árið 2007 renna til sjóðsins. Það hefur borið á því undanfarin ár að umsóknir um styrk úr sjóðnum til fartölvukaupa til skólabarna hafi aukist og eru fyrir því eðlilegar ástæður. Börnin hafa í auknum mæli getað notað sér nýjustu tækni við námið sem hefur auðveldað þeim skólavinnuna á margan hátt og eru því kærkomnar nýjungar. Það er þó nokkuð stór viðbótarkostnaður fyrir foreldra ungra barna að útbúa þau með slík tæki við upphaf skólagöngu og hefur sjóðurinn lagt allt kapp á það á undanförnum árum að koma til móts við foreldra með því að styrkja þau til fartölvukaupa fyrir börnin. Ragnar R. Magnússon formaður sjóðsins ,,Blind börn" veitti móttöku gjafabréfi fyrir eina milljón króna þann 30.janúar 2008.

Blöðruómsjá gefin á Grund

Thorvaldsensfélagið færði hjúkrunarheimilinu Grund blöðruómsjá á morgunstund íbúa og starfsfólks á aðventunni. Blöðruómsjáin skiptir sköpum við greiningu á þvagfæravandamálum og því mikilvægt hjálpartæki. Guðrún Gísladóttir forstjóri tók á móti gjöfinni og færði félaginu kærar þakkir fyrir.

Thorvaldsensfélagið gefur blöðruómsjá

Thorvaldsenesfélagið færði hjúkrunarheimilinu Sóltúni blöðruómsjá að gjöf á aðventunskemmtun íbúa og starfsfólks. Blöðruómsjáin er mikilvægt greiningartæki þegar þvagfæravandamál koma upp og leysir af hólmi eldri og óþæilega greiningaaðferð. Júlíana Sigurveig Guðjónsdóttir hjúkrunarstjóri veitti tækinu móttöku og sagði frá gagnsemi þess um leið og hún færði félaginu kærar þakkir fyrir hönd íbúa og starfsfólks.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509