Lög félagsins

Lög félagsins

Lög Thorvaldsensfélagsins

1. grein


Félagið heitir Thorvaldsensfélagið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

 

2. grein

 

Tilgangur félagsins er að vinna að almenningsheill og styrkja þá sem við erfiðleika búa eftir því sem efni og kraftar félagsins leyfa. Félagið styður eftir föngum innlendan iðnað, eykur hann og eflir á hvern þann hátt sem félagið álítur heppilegast.

 

3. grein

 

Í stjórn félagsins skulu vera 7 konur, formaður og sex meðstjórnendur sem skipta með sér verkum. Kjörtímabil stjórnarkvenna er þrjú ár, sbr. 13 gr. Stjórnin hefur á hendi framkvæmdir félagsins.

 

4. grein

 

Félagið hefur í vörslu sinni Barnauppeldissjóð Thorvaldsensfélagsins og Kortasjóð Thorvaldsensfélagsins.

 

5. grein

 

Barnauppeldissjóður Thorvaldsensfélagsins, og Kortasjóður Thorvaldsensfélagsins skulu hafa sérstaka fimm manna stjórn, sem kjósa skal á aðalfundi. Stjórnin hefir á hendi öll störf sjóðunum viðvíkjandi. Þó skulu allar stærri framkvæmdir Barnauppeldissjóðsins og Kortasjóðsins bornar undir stjórn Thorvaldsensfélagsins.

 

6. grein

 

Félagið heldur að jafnaði fundi einu sinni í mánuði á tímabilinu 1. október til 31. maí ár hvert. Á almennum fundum skal ræða félagsmál, en ályktanir eru því aðeins lögmætar, að fundurinn fullnægi 9. og 10. gr.

 

7. grein

 

Stjórn félagsins kveður til aukafundar, þegar þurfa þykir og er hún skyld til þess, ef 10 félagskonur óska þess.

 

8. grein

 

Stjórnin skal boða til funda þannig að tryggt sé að allar félagskonur fái boðin.

 

9. grein

 

Lögmætur fundur er, ef þriðjungur allra félagskvenna mætir og ræður meiri hluti þeirra, sem á fundi eru, úrslitum mála. Verði fundur ekki lögmætur skal boða til fundar á ný innan fárra daga og ræður þá afl atkvæða þeirra, er á fundi eru.

 

10. grein

 

Á hverjum fundi má taka inn nýja félaga. Skilyrði fyrir inntöku eru meðmæli 2ja félagskvenna og að lögmætur fundur samþykki inngönguna. Úrsögn úr félaginu skal send skriflega formanni þess fyrir aðalfund.

 

11. grein

 

Aðalfundur ákveður félagsgjald.

 

12. grein

 

Aðalfund skal halda eigi síðar en í maímánuði ár hvert og skulu þessi mál tekin fyrir:

 

1. Stjórnin gefur skýrslu um störf félagsins á liðnu ári.

 

2. Lagðir skulu fram reikningar félagsins og sjóða þess.

 

3. Kosin stjórn félagsins til 3 ára. Kosningu skal haga þannig , að kjósa skal formann sérstaklega og 2 meðstjórnendur, næsta ár 2 meðstjórnendur og þriðja árið 2 meðstjórnendur. Kjörtímabil hverrar stjórnarkonu skal vera 3 ár. Endurkjör er heimilt en þó má engin kona sitja lengur en 2 kjörtímabil samfellt Stjórnarkonur eru þó kjörgengar til formanns án tillits til þess tíma sem þær hafa starfað í stjórninni. Láti stjórnarkona af störfum í stjórn félagsins, áður en kjörtímabili hennar er lokið, skal á næsta aðalfundi kjósa í hennar stað fyrir það kjörtímabil sem fráfarandi stjórnarkona var kjörin til. Stjórnin skiptir með sér verkum.

 

4. Kosin stjórn Barnauppeldissjóðs og Kortasjóðs til þriggja ára.Kosningu skal haga þannig að kjósa skal formann sérstaklega og 2 meðstjórnendur og síðan næsta ár 2 meðstjórnendur. Endurkjör er heimilt en þó má engin kona sitja lengur en sex ár í stjórnum sjóðanna samfellt.

 

5. Kosnir tveir endurskoðendur og einn til vara.

 

6. Rædd félagsmál og gerðar ályktanir um tillögur er kunna að koma fram á fundum.

 

13. grein

 

Lögum félagsins má því aðeins breyta, að breytingartillagan hafi verið rædd og samþykkt á tveimur lögmætum félagsfundum hvorum eftir annan.

Thorvaldsensfélagið
Austurstræti 4
101 Reykjavík
Sími: 551-3509