Stofnun Thorvaldsensfélagsins
Samstarf og vinátta nokkurra kvenna varð til þess að Thorvaldsensfélagið var stofnað 19. nóvember árið 1875. Nokkrar ungar konur höfðu verið fengnar til að prýða Austurvöll því þar átti að koma fyrir styttu af Bertel Thorvaldsen, myndhöggvaranum mikla. Þær fengu vinkonur og frænkur í lið með sér og skreyttu völlinn fagurlega með blómsveigum og fléttum úr íslensku lyngi, sem þær vöfðu um grindurnar umhverfis völlinn. Á grindunum voru raðir af ljóskerum sem þær settu marglitan pappír á og þegar kveikt var á þeim um kvöldið vörpuðu þau frá sér marglitum ljósum. Þessi endurgjaldslausa vinna við að prýða umhverfið, öllum til mikillar ánægju, var bæði skemmtileg og auðveld því samvinnan var góð. Ungu konurnar höfðu mikla ánægju af samstarfinu og ákváðu að halda hópinn og reyna í félagi að láta gott af sér leiða. Og það var vandalaust að finna verkefni því fátækt var mikil og neyðin blasti víða við.
Fyrstu starfsárin
Eitt af fyrstu verkefnum félagskvenna var að sauma ýmsan fatnað sem þær gáfu inn á fátæk heimili fyrir jólin. Fjáröflun félagsins var með nýstárlegum hætti, það voru haldnar hlutaveltur og bazarar og jafnvel settar upp leiksýningar. Um jólin 1876 héldu félagskonur fyrstu af mörgum jólatrésskemmtunum fyrir fátæk börn og einnig héldu þær skemmtanir fyrir eldra fólk og buðu þá upp á sjónleiki er þær sjálfar léku.
Þar sem flestar þessara ungu kvenna voru vel menntaðar vissu þær að bætt menntun þeirra er minna máttu sín væri verðugt verkefni og vel færi á að Thorvaldsensfélagið yrði mannúðar- og menningarfélag. Árið 1877 var Handavinnuskóli Thorvaldsensfélagsins stofnaður og þar kenndu félagskonur í sjálfboðavinnu stúlkum á aldrinum 7-14 ára að sauma og prjóna. Þessi skóli var starfræktur allt til ársins 1904 er farið var að kenna þessar greinar í barnaskólum. Einnig ráku félagskonur í tvö ár skóla á sunnudögum, en hann var ætlaður eldri stúlkum og þar voru kenndar bóklegar greinar.
Konurnar sem báru þvott borgarbúa inn í Laugar og þvoðu hann þar voru þakklátar Thorvaldsenskonum fyrir byggingu Laugahússins árið 1887 og ekki síður þeirri kvöð sem fylgdi, er húsið var gefið Reykjavíkurborg, en það var að konur bæru ekki þvottinn á bakinu. Eftir það var þvottinum ekið á hestvögnum sem borgin átti.
Thorvaldsensfélagið bar svo sannarlega hag kvenna fyrir
brjósti og varð vísir að kvenréttindafélagi. Árið 1885 áttu félagskonur
frumkvæði að flutningi alþýðlegra fræðsluerinda um menningar og réttindamál
kvenna og nefndust þau „Hin fyrstu sögulegu atriði um baráttu fyrir menntun
kvenna“ og „Þýðing konunnar fyrir þjóðfélagið, einkum
heimilislífið“. Þessum erindum var vel tekið og ágóðinn af aðgangseyrinum
rann í félagssjóð.
Árin 1896 og 1897 var mikið fiskileysi og þröngt í búi hjá mörgum. Þá fengu
félagskonur inni í svokölluðum „frönsku húsum“ en það voru þrjú hús í
röð er sneru öðrum gaflinum að Austurvelli og hinum að Austurstræti.
Stjórn Frakklands hafði látið reisa húsin sem athvarf fyrir franska skipbrotsmenn, en lengst af voru þau tóm og bæjarbúar höfðu horn í síðu þessara húsa við völlinn. En þarna settu Thorvaldsenskonur upp eldhús og réðu til sín konu sem eldaði matinn sem þær báru svo á borð fyrir börn, gamalmenni og aðra sem áttu erfitt. Þarna sáu þær um matargjafir í tvo til þrjá mánuði hvort ár, fyrir á annað hundrað manns.